laugardagur, júlí 31, 2004

 

Af ævintýrum helgarinnar

Nú jæja, maður var eitthvað að barma sér í síðasta pistli yfir ofþreytu og þess háttar. Það er nú ekki eins og það stoppi mann eitthvað frá því að fá sér í glas með vinum sínum eða hvað? Onei! Það kom fólk og heimsótti mig í gærkvöldi, sat hér og sötraði. Mér var víst uppálagt að skrifa eitthvað um teiti þetta þannig að ég varð hripa eitthvað niður. Þetta byrjaði ákaflega rólega með því að ég eldaði hænsn og át í rólegheitum. Horfði á fréttir og þessháttar. Þá birtist El Bjón blyndfulli en það kom mér svo sem ekkert á óvart þar sem ég hafði boðað hann hingað. Kom hins vegar á óvart að Baldur buxnasali skutlaði honum. Síðan komu þeir Sigurpáll og Hörður og léku á alls oddi. Skömmu síðar datt Möggu systur og Grétari allt í einu í hug að kíkja í kaffi. Það var nú eiginlega sögulegt að því leyti að ég man bara alls ekki eftir á öllum mínum partíferli að ég hafi nokkurntíma hellt uppá kaffi þegar partí er annars vegar. En einhverntíma verður allt fyrst. Þá birtust þær stallsystur Maja og Steinunn og síðan kom hér snigill að sunnan sem Gizmo er kallaður. Svo eftir ótæpilega drykkju á alls konar veigum (Vodka, bjór, kaffi, Magic og Lxxxx) þá var brugðið undir sig betri fætinum og skellt sér í Sjallann að hlýða á Þá ómþýðu sveit Papa. Þeir stóðu náttúrlega fyrir sínu eins og alltaf og nenni ég ekki að tíunda það neitt í sjálfu sér. Þetta var allt með hefðbundnu sniði. Eftir þetta gengum við Bjón um bæinn og virtum fyrir okkur börn á öllum aldri sem veltust um dauðadrukkin í Miðbænum. Ég hitti alls konar skrítið fólk sem ég hef jafnvel ekki hitt svo árum skipti. Þar má nefna, Gísla (Gis) frá Dalvík sem spilar og syngur, Bjarna sem beit, Smára í Slippnum, Palla Svavars og Helga Svein sem vildi endilega gefa okkur pizzu og marga fleiri sjálfsagt. EBB þurfti endilega að koma við í Sorgarbölunni til að, kaupa pylsu eða eitthvað. (hm!) En það er best vera ekkert að tala um það hér á þesari síðu. Hann verður að gera það sjálfur ef hann þá vill tjá sig eitthvað um málið. Annars er svo sem ekkert að frétta af mér.

|

mánudagur, júlí 26, 2004

 

Stiklað á stóru

Fór á rúntinn með Dúdda á Doddsinum á föstudagskvöldið, heyrðum það svo í fréttunum daginn eftir að við hefðum verið í lífshættu vegna óðs manns með hreindýrariffil. Eins gott að við vissum ekki af því. El bjón hringdi svo klukkan hálf ellefu, varla kominn til Akureyrar og vildi endilega fá sér í glas. Það endaði náttúrulega með ósköpum eins og venjulega.

Á laugardaginn fórum við El Bjón í heitan hund til Dúdda og co. Það var bara alveg ágætt. Síðan var teiti í Ásveginum á eftir þar sem Bjón var heiðursgestur og var áfengisneysla höfð í hávegum. Pappír var lítt notaður þar til undir það síðasta. Var það lektorinn sem krafist þess. Enduðum svo niðrí bæ þar sem Bjón lenti í klóm kvenna og sneri ég heim við svo búið. Alveg gjörsamlega búinn á líkama og sál. Maður þolir ekkert núorðið.

Á sunnudaginn vakti Brynja systir mig eldsnemma til að taka upp formúluna og tuttugu mínútum síðar hringdi Magga systir og gabbaði mig til Grenivíkur til að hjálpa þeim skötuhjúunum að flytja.

Maður er bara enn að ná sér eftir þetta allt saman.

|

föstudagur, júlí 23, 2004

 

Áfengislepjarar allra landa sameinist

Ég var að lesa það á Mbl.is að Samtök ferðaþjónustunnar hefðu farið fram á það við iðnaðar og viðskiptaráðherra að sjússastærðir hérlendis yrðu samræmdar sjússastærðum erlendis. Eins ferðafélagar mínir í fyrra til Kaupmannahafnar og nágrennis muna ef til vill þá var Vodkasjússinn 2cl á börunum í Köben en er 3cl á börunum hér heima. Dettur einhverjum heilvita manni í hug að verðið á sjússinum myndi lækka ef að af þessu myndi verða. Að sjálfsögðu myndu bareigendur bara halda sama verði. Minna magn, hærra verð. Meira Kók, minna vín. Nú er bara að vona að Valgerður hlusti daufum eyrum á þessa ósvinnu.

|

miðvikudagur, júlí 21, 2004

 

Vá mar, ten fokkíng jers.

Af því að fólk er þræta um einhverjar partítiltektir heima hjá mér þá minnir mig endilega að það hafi enginn hjálpað mér að laga til eftir verslunarmannahelgina 1994. Var það ekki þá sem að ísskápurinn minn hljóp sjálfkrafa fram á gang með smá aðstoð frá Axel og Kidda frænda. Nonni vakti Gulla Friðriks með því að hella fullum potti af vatni yfir hann. Árni Friðriks ætlaði að henda löggunni út en Júlli vildi fá far með þeim í bæinn (Fyrst þeir voru á annaðborð komnir). Man eftir að Jimi Hendrix og Cream voru spiluð mjög hátt á PLÖTUSPILARANUM til svona að ganga þrjú og fólkið blokkinni var mjög ánægt með þessi skemmtiatriði. Var það ekki líka í þessu partíi sem einhver snillingurinn hellti salti á allt sem helltist niður á gólfið. Þannig að daginn eftir óð maður saltskaflana upp í klof. Minnir að uppundir 30 manns hafi verið þegar flest var í íbúðinni. Ég man nú samt ekki eftir neinum ælum enda passaði maður það að fara ekki með liðið á Greifann rétt fyrir ammæli eins og ónefnd systir mín gerði (Nefni engin nöfn en annar stafurinn er U).

|

mánudagur, júlí 19, 2004

 

Vitlaust um að vera

Nú þegar Vitlausramannahelgin er að nálgast þá er það eins og venjulega að dagbókin manns fer að fyllast af einhverjum helv. fylleríspartíum. (Undarleg setning). Held að þetta sé Nonna að kenna. Hef reyndar ekki séð hann síðan í fyrra en það er svo skrítið að um leið og fréttist af honum einhversstaðar í námunda við sker það er vér byggjum, þá spretta upp gamlir vinir eins og gorkúlur og bjóða manni í partí hist og her um sveitarfélagið. Ekki það að ég sé neitt endilega að kvarta yfir því, síður en svo.  Það er bara svo furðulegt með okkur félagana að þó að búum í 2,5 km radíus frá hver öðrum þá er eins og við getum aldrei hist núorðið nema í einhverjum skipulögðum veislum svona sirka einusinni á ári. Ekki það að það sé ekki alveg eins mér að kenna og þeim. Ég hélt bara svo mörg partí hérna á árunum að ég er bara alveg hættur að nenna því. Þessu fylgja líka þvílík óþrif og pappírsnotkun að jafnvel engispretta myndi dauðskammast sín. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekkert hvað ég er að fara með þessum pistli en það verður bara að hafa það. Enda er þetta mín síða og ég ræð hvað ég skrifa hérna og hananú.

|

fimmtudagur, júlí 15, 2004

 

Innlit - Útlit

Nokkrar fyrirspurnir hafa borist síðunni um það hvort ekki eigi að vera mynd af undirrituðum. Því er til að svara að það stóð til og stendur reyndar ennþá til. Vandamálið er það að síðan sem átti að geyma myndina er búin að vera "under maintennance" í marga daga og því getur undirritaður enn um sinn ekki orðið við bón fyrirspyrjenda um að birta hér mynd að annars fallegu atgerfi hans. Það stendur þó vonandi til bóta. Áhugasömum er hins vegar bent á síðurnar, Sjallinn.is og Djamm.is þar sem ítrekað hafa birst myndir af undirrituðum að honum forspurðum.

Annars þarf undirritaður að hafa samband við tæknideild síðunnar til þess að fá frekari upplýsingar. Með kærri kveðju, Lifrin eina.

|

miðvikudagur, júlí 14, 2004

 

Es regnet

Það er helst að frétta þessa dagana að það er bara alls ekkert að frétta.

|

þriðjudagur, júlí 13, 2004

 

Hahahahahahahahaha

Það er nú víst ekki málið að láta skoða einn bíl.

|

sunnudagur, júlí 11, 2004

 

Komiðisæl

Fór í vöpplur til Brynju systur í gær og grill til mömmu. Eins og einhverjir hafa kannski tekið eftir þá er útlit síðunnar örlítið breytt og einhverja hefur jafnvel rekið í rogastans við að sjá mynd af einhverri stúlkukind þar sem átti að koma mynd af mér. En tölvusnillingurinn hún litla systir mín var að dedúa við að öppdeita lúkkið á síðunni hjá mér. Eins er beðist velvirðingar á því commentakerfinu var breytt í sömu mund og þeir sem höfðu gerst svo djarfir að tjá sig eru beðnir velvirðingar á því að athugasemdum þeirra hefur verið kippt í burtu. En ekki vera samt feiminn við að tjá ykkur samt því að nú á það að vera komið í endanlegt horf.

|

föstudagur, júlí 09, 2004

 

Hot in the City

Æi það er alltof heitt til að tuða útaf einhverju núna. Hvet ég alla til að muna eftir að hlusta á Sniglabandið milli ellefu og tólf á föstudögum á Rás 2.

Ipswich fréttir. Við vorum að fá Kevin Horlock frá West Ham og Mark Rivers frá Norwich frítt og Andy Marshall er búinn að skrifa undir hjá Millwall.

|

fimmtudagur, júlí 08, 2004

 

Sandkassaleikurinn í algleymingi

Landsfeður vorir halda áfram að leika sér í sandkassanum við Austurvöll. Meira hvað þetta pakk getur þrefað útaf nánast engu. Dabbi og Dóri kasta leiftursnöggt Barbabrellum fram úr erminni og halda eins gjarnt er um menn í fílabeinsturni að allir séu þeim hjartanlega sammála. Eitt varðandi þessi fjölmiðlalög og allt það klabb. Davíð segir að Baugur eigi alltof mikið. Hm. Var ekki Davíð fundarstjóri á aðalfundum Eimskips um árabil. Eru allir búnir að gleyma Kolkrabbanum heitnum. Fyrir þá sem ekki muna hann þá var það í stuttu máli Eimskip/Skeljungur/Flugleiðir og svo allskonar fyrirtæki sem áttu hvort annað. Er Halldór Ásgrímsson búinn að gleyma SÍS. Sambandið átti allar smærri og sumar stærri byggðir á landinu nema þegar illa gekk hjá einhverjum þá máttu bændaræflarnir borga. Saman áttu þessar tvær samsteypur nánast allt landið. En auðvitað var það allt annað mál og ekki sambærilegt við þetta því að þetta pakk var með flokkskírteinin sín á hreinu.

Varðandi stólaskiptin hjá Framsóknarflokknum. Væri ekki best að fara í leikinn þarna sem ég man ekki hvað heitir þar allir hlaupa í kringum stóla sem raðað er í hring nema hvað þátttakendur eru einum fleiri en stólarnir og svo þegar lagið er búið þá eiga allir að setjast og sá sem fær engan stól fær bara ekki að vera ráðherra lengur. Svo má krydda þetta með því að merkja stólana ákveðnum ráðuneytum svo að það sé á hreinu líka.

Og í annað. Formúla 1. Fólk er alltaf að básúna það hvað Ferrari séu alltof góðir og þetta sé ekkert gaman lengur af því að Shumacher vinni alltaf. Hvað er að þessu liði eiginlega. Hefur engum dottið í hug að hin liðin séu bara of léleg. Peningar segir þá einhver. Vissulega skipta þeir talsverðu máli þessu öllu saman. En ég bendi á að það er ekkert mjög langt síðan að Ferrari vann ekki keppni í 20 ár eða svo. Og svo líka það að nokkrar af keppnunum á yfirstandandi tímabili hafa unnist á leikskipulagi en ekki endilega besta bílnum. Af hverju geta hin liðin ekki lært á þessu. Stórt er spurt en fátt um svör.

|

miðvikudagur, júlí 07, 2004

 

Éb eb meb kveb

Eftir talsverða eftirgrennslan þá hef ég komist að því að bíllinn minn er sjaldgæft eintak og það virðist ekki taka því að liggja með varahluti í hann lengur. Er búinn að vera að sverma fyrir handbremsubarka í hann og hef þau tíðindi að segja að hvorki Bílanaust né Stilling eiga hann til. Höldur getur útvegað 1 stykki frá Heklu líklega og kostar það vel á áttunda þúsund. Er ekki bara betra að vera grjóthnullung í bílnum ef að maður þarf á annað borð að leggja í brekku. Annars er svosem ekkert að frétta hjá mér þannig.

Alveg rétt ég minntist ekkert á fótknattleik síðast og verð aðeins að bæta úr því. Ég er hæstánægður með að Grikkir unnu EM. Einhverjir "nóbodís" sem slógu bara allar þessar stjörnur út úr keppninni. Ég vil fá Otto Rehagel sem þjálfara íslenska landsliðsins. Ætli það yrði ekki álíka sprauta og þegar Bogdan Kowalzyk (Spurning um stafsetningu) reif upp handboltann hérna um árið.

Ipswich lét Leðs hirða frá sér hinn fjölhæfa miðjumann Jermaine Wright frítt á dögunum. Vona að hann geti ekki neitt hjá þeim. Martin Reuser er farinn til Hollands. Hann var líka alltof latur og feitur og á alltof háu kaupi. Chris Makin er týndur og það veit enginn hvar hann er. John McGreal dreif sig til Burnley minnir mig. Góðu fréttirnar eru þær að Jim Magilton, Fabian Wilnis, Lewis Price og Richard Naylor skrifðu allir undir nýja samninga um daginn. Besti varnarmaður Kanada er að auki genginn til liðs við Ipswich, Jason De Vos. Svo má nefna að Tony Mowbray sem var þjálfari hjá okkur og lengi leikmaður og aðstoðarmaður George Burley hirti stjóra stöðuna hjá Hibernian sem Guðjón Þórðar vildi ekki. Joe Royle var að vinna skaðabótakröfu vegna brottreksturs síns frá Manchester City um árið og Alan Ferguson vallarstjóri á Portman Road vann verðlaun fyrir besta völlinn í fyrstu deildinni 2003/04. Það er spurning hvort að aðdáendur Elton John hafa eyðilagt völlinn um daginn en fjölsóttir tóleikar hins miðaldra píanóleikara voru haldnir á Portman Road um daginn. Spurning hvort Richard Clayderman sé næstur.

|

mánudagur, júlí 05, 2004

 

Af tónlistarsumrinu mikla 2004

Nú hafa örugglega þessir þrír sem nenntu yfirhöfuð að lesa þetta klór hjá mér hætt að nenna að tékka á síðunni hjá mér vegna aðgerðaleysis undirritaðs. En ég er nú búinn að gera víðreist í millitíðinni. Brá mér suður á flata landið og dvaldi í borg óttans um vikutíma og tókst þar að sjá nokkur gömul brýni troða upp í Laugardalshöllinni (Deep Purple). Megi yngri sveitir taka þá sér til fyrirmyndar hvað hressleika varðar. Frábærir tónleikar. Slógu samt ekki út Iron Maiden á Roskilde í fyrra. Ennfremur sá ég á Grand Rokk þær ágætu sveitir Týr og Douglas Wilson sem að klikkuðu ekki heldur. Ef að þetta væri nú ekki nóg brá ég mér á landsmót Snigla í Húnaveri um helgina. Þar var ásamt Sniglabandinu mættur gítargúrúinn Guðlaugur Falk með sveitir sínar Exist og Dark Harvest og fóru þær á kostum eins og viðbúið var. Bara svo að ég nefni það einu sinni enn, ég sá Metallica í fyrra. Nenni ekki að tala um pólítík og fótbolta að þessu sinni.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?