fimmtudagur, september 30, 2004

 

Burning Down the House.

Jæja þá er maður nú á síðasta degi á Lögmannsstofu Norðurlands. Búinn að tæma reikingana og kaupa miða til útlanda aðra leiðina. Annars er svo sem ekkert um það meira að segja nema að það vill mig enginn í vinnu. Allavega enginn sem ég vill vinna hjá. Furðulegt ekki satt. En það hlýtur að blessast. Það er aldeilis að menn gera garðinn frægan víðs vegar um landið. Hörður rústaði byggðasafninu á Höfn og Lena kveikti í vilkósúpu á Blönduósi. Hvað er eiginlega að gerast með þetta fólk sem maður þekkir?

Varðandi þessar meintu kvennafarsdylgjur sem Hulda systir hefur verið að kommenta um hérna á síðunni þá neita ég alfarið að tjá mig um þau mál

Lifið heil

|

mánudagur, september 27, 2004

 

Fjöllin hafa vaknað!!!

Jæja krakkar. Ég fór á Egó á laugardagskvöldið. Þeir voru náttúrlega bara snilldin ein. Þeir tóku flest Ególögin ásamt allskonar öðrum Bubbalögum. Stukku jafnvel yfir í Clash og fleira góðgæti. Hittumst heima hjá mér, ég, Dúddi, Ingvar, Tóta og Guðný vinkona hennar. Drifum okkur svo í Sjallann og skemmtum okkur gríðarlega. Var djöfull framarlega lengst af og fílaði mig í ræmur. Enda var ég svo sveittur að ég gat undið bolinn minn þegar ég kom heim. Helvíti var ég nú samt ánægður að hitta þig fremstan manna Sigurður. Óheppnir þeir sem tímdu ekki að fara. Annars hefur svo sem ekkert gerst sem segjandi er frá.

|

miðvikudagur, september 22, 2004

 

Falling Down the Mountain

Ég vil bara lýsa því hér með yfir að Doncaster er greinilega með hörkulið.

|

föstudagur, september 17, 2004

 

Við viljum Sigurð

Nú eru uppi hugmyndir um að byggja háhýsi hérna út um hvippinn og hvappinn hérna á Akureyri. Mér er svo sem slétt sama. Pant samt ekki búa á efstu hæð. Og svo er spurning um tilgang. Það eru flestar jarðir hér í kring komnar í eyði þannig að ekki er nú landskortur málið eða hvað?.

Enn hef ég heyrt umræðu um það að taka íþróttavöllinn okkar og byggja á honum. Er ekki allt í lagi með fólk. Þetta er líklega einhver skemmtilegasta aðstaða á landinu frá náttúrunnar hendi. Menn tala um að það mæti hvort sem er aldrei neinn á þessa íþróttaviðburði sem eru þarna. Það má vel vera rétt enda geta þessi íþróttafélög okkar ekki neitt í fótbolta. Svo eru alltaf uppi hugmyndir um sameiningu félaganna Þórs og KA. Ég hef nú lengi verið á móti þeirri hugmynd en er eiginlega snúast í afstöðu minni. Það er nú þannig að í þessum blessuðum heimi íþróttanna snýst allt um peninga í dag. Ef af sameiningu yrði ættum við að geta haldið úti sterkum fótbolta og handbolta liðum. Skiptir svo sem ekki máli í körfu og blaki þar sem að aðeins eitt lið er í gangi þar og hefur verið um árabil og í kvennaboltanum þar löngu er búið að sameina. Hitt er svo aftur annað mál að þeir strákar sem ekki komast í úrvalsliðið (ÍBA) munu alltaf finna sér einhver smærri lið á svæðinu til að spila með og gæti þetta komið þeim liðum til góða líka. Hver man ekki eftir stórveldum eins Vaski, TBA, Nökkva, Magna, Æskunni, Árroðanum, UMSEb, SM, Leiftri, Dalvík, Reyni Ársk., Völsungi, Bjarma, HSÞb, Narfa, Dagsbrún og så videre. En þrátt fyrir allt þetta þoli ég samt ekki KA.

|

miðvikudagur, september 15, 2004

 

Fljúgum hærra!

Vil minna á að það er hátíðisdagur í sögu íslenska lýðveldisins. Örn Árnason er að láta af embætti forsætisráðherra og hinn geðþekki Bolvíkingur Pálmi Gestsson að taka við. Skoðið endilega bakþanka Fréttablaðsins í dag, brandara mínum frá því fyrr á þessu bloggi hefur verið stolið af einhverri kvensnift.

Ekki stóð sælan á toppnum lengi yfir. Ipswich tapaði í gærkvöldi 2-3 fyrir Stoke City sem komst á toppinn í staðinn. Hver hefði svosem trúað því?. En þetta er allt í lagi meðan við erum fyrir ofan, Leeds, West Ham, Sunderland og Wolves.

Ekki veit ég hvað Davíð Oddsson og co voru að væla yfir að það þyrfti að styrkja loftvarnir Íslands. Fannst allavega nóg um loftvarnir hérna yfir Akureyri í gær. Hávaðinn slíkur að amma mín sem er níræð og hálfheyrnarlaus kvartar yfir hávaða þegar þessi glæsiloftför hans Runna skjótast fram hjá herbergisglugganum hennar á Kjarnalundi. Legg til að stað þess að þessi morðtól séu látin þykjast lenda á Akureyrarflugvelli á góðviðrisdögum séu þau látin fljúga reglulega í lágflugi yfir vesturbæinn í Reykjavík. En það má auðvitað ekki. Einhverjar gamlar sjálfgræðisflokkshetjur gætu fengið hjartaáfall á elliheimilinu Grund.

|

sunnudagur, september 12, 2004

 

Will We Be The Champions, My Friends?

Mikið óskaplega er maður búinn að vera rólegur þessa helgina. Það eina sem ég hef gert eitthvað óvenjulegt er það var tiltektardagur í blokkinni hjá mér og við fórum með tvær fullar kerrur upp í gáma af einhverju drasli sem löngu burtfluttir íbúar höfðu skilið eftir í sameigninni. Reyndum svo aðeins að taka til eftir málarana (helv. iðnaðarmenn). Semsagt geðveikt stuð.

Hef orðið var við ákveðið áhugaleysi hjá fólki í sambandi við skráningu í draumadeildina, held bara að fólk þori ekki.

Vil annars benda fólki á að skoða síðu 345 í textavarpi RUV og sjá hverjir eru efstir í Champions League á Englandi.

|

föstudagur, september 10, 2004

 

For Those About To Rock

Ef einhver vill vita það þá er ég búinn að kaupa miða á Egó í Sjallanum laugardaginn 18. september, takk fyrir.

|

sunnudagur, september 05, 2004

 

Baa baa, black sheep

Reif mig á fætur fyrir allar aldir til þess að drífa mig austur á Illugastaðarétt í þrítugasta og sjötta eða sjöunda skipti. Ætlaði að mæta fyrstur en Grenivíkurpakkið var náttúrlega komið á undan mér. Enda klukkan langt gengin í níu. Það er af sem áður var að það var byrjað að rétta klukkan sjö og ekki búið fyrr en um tvo leitið og þá átti eftir að reka heim. Heimur versnandi fer. Það var einnig mjög algengt að við piltarnir, ja svona á aldrinum 8-12 værum mest allan réttardaginn niður við á að klifra í brúnni og þess háttar sem enginn skipti sér af því að allir voru náttúrlega önnum kafnir við fjárdrátt. Nú mega börn á þessum aldri helst ekki koma nálægt ánni nema helst þrír fullorðnir séu í meters fjarlægð. Samt er mjög svipað af vatni í ánni núna og var þá. Kannski foreldrar séu bara orðnir strangari í dag heldur en þá. Takk Mamma, ég hefði ekki viljað missa af þessu. Fór svo í Sigríðarstaði og dvaldi þar í góðu yfirlæti fram yfir kvöldmat. Amma var mætt eins og venjulega þangað og þeir feðgar Steini og Davíð. Um sexleytið fékk Edda mig til að fara með sér útí Fornhóla til sækja 10 kindur sem þar höfðu komið í hús, en Lalli var ennþá að keyra fé heim af réttinni. Tókst það giftusamlega og þó ég segi sjálfur frá þá held ég að ætti að leggja það fyrir mig að bakka með kerru. Tókst í fyrstu tilraun að bakka að fjárhúsunum á Fornhólum við mikinn fögnuð viðstaddra. Þangað til næst: MeMe.

|

fimmtudagur, september 02, 2004

 

Rákum við í réttirnar...

Eins og Hulda systir mín bendir (með brotna puttanum) réttilega á þá eru í dag 16 ár síðan að ég eyddi kr. 20.000.- í afruglara. Það var kannski af því tilefni sem að Íslenska útvarpsfélagið skrifaði mér á dögunum og benti mér kurteislega á að skila nú afruglaranum sem að ég er með í láni hjá þeim ef að ég ætlaði ekki að drullast til að kaupa áskrift hjá þeim. Til hvers að kaupa áskrift? Enski boltinn er á Skjá flestra landsmanna. Og það er ódýrara að fara út á leigu og taka þessar fáu bíómyndir sem manni langar að sjá. Hulda systir hefur líka bara gaman af því að taka upp 24 og Amazing Race fyrir mig. Hún hefur líka ekkert annað að gera. (Mér þætti gaman að sjá framan í hana núna). Meðan ég man, Hulda, skilaðu kveðju til Möggu Birgis frá afrugaranum, þ.e. þessum gamla. Ef að einhver vill kaupa hann af mér þá getur hann farið á svona sirka kr. 15000.-

Önnur mál. Ég braut engann helvítis bekk á Oddvitanum Sigurpáll. Það voruð þið aularnir, þú og Brynjar sem sátuð í honum þegar ég kom þarna sárasaklaus og rétt tyllti mér á brúnina. Og ég man ekki betur en að Brynjar hafi verið farinn að rífa hann í sundur rétt skömmu síðar. Og hananú!

Minni á réttir á sunnudaginn. Allir að mæta til að draga þessar þrjár kindur sem eftir eru á afréttinni.

Brynja, þetta er allt saman hálfgerð latína fyrir mér. (Num).

Minni einnig á www.draumadeildin.is. Fíflin náttúrlega byrjuð án þess að láta nokkurn vita. Meira að segja Dabbi frændi byrjaður og kominn með 81 stig og þagði þunnu hljóði yfir þessu. Hann verður tekinn í gegn á sunnudaginn. En mér skilst að hann mæti bara í réttir þegar Crystal Palace er í efstu deild. En þessi 81 stig sem hann þykist vera kominn með verða dregin frá í langbestu deildinni. Það er ekki smurning.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?