sunnudagur, ágúst 07, 2005

 

New Song

Ég nenni ekki lengur að vera í sjálfsskipuðu fjölmiðlabanni eins og Bubbi Morthens og því tek ég aftur til við bloggið mitt sem reyndar er farið að minna á eyðimörk. Það er því best að stikla á stóru um hvað hefur markverðast gerst í lífi mínu en það kann kannski ekki að koma neinum á óvart að það er ekki harla mikið.

Síðast þegar ég bloggaði var ég á leiðinni á ættarmót Sigríðarstaðaættarinnar hinnar síðari og er skemst frá því að segja að það tókst með ágætum. Allavega kom það í ljós hvaða afkomendur langafa og langömmu voru duglegastir við að skemmta sér. Er reyndar enn með íþróttaeitrun eftir alls konar gönuhlaup sem maður var plataður í hálffullur um miðja nótt. Það má auk þess geta þess að út var gefið niðjatal langafa og langömmu, Róberts Bárðdal og Herborgar Sigurðardóttur sem ég sjálfur tók saman og þó að ég segi sjálfur frá þá tókst það bara með prýði.

Einhverntíman í júlí var haldinn fundur í pappírsvinafélaginu heima hjá Dúdda þar sem fullorðið fólk varð sér til skammar og neytti áfengis og blótaði pappír af miklum móð. Þar voru mættir bara held ég allflestir félagsmenn og konur og stóðu sig flestir með prýði.

Um verslunarmannahelgina ákvað ég að kasta inn handklæðinu og sótti enga skipalagða úti eða innihátíð í fyrsta sinn í tuttugu ár. Dreif mig í útilegu á ættaróðalið með fjölskyldunni, þ.e. systrum mínum, öðrum ættingjum og vinum og vandamönnum. Stóð mig að því að drekka enga brennda drykki og það lágu þó nokkrir bjórar í valnum þegar upp var staðið.

Annars hefur verið snarvitlaust að gera í vinnunni hjá mér af því að Júnætedbullan hefur verið í fríi og hefur maður orið að vinna þar myrkranna á milli (Sem er asnalegt að segja um hásumar á Íslandi). En þetta fer nú allt að lagast.

Æi! Ætli maður reyni svo ekki að blogga oftar hér eftir.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?