þriðjudagur, ágúst 31, 2004

 

On the road again

Alltaf jafn aktífur í þessu bloggi. Brá undir mig betri fótunum og fór á hestbak á laugardaginn með intrumgenginu. Slapp furðuvel frá því þrátt fyrir að hafa ekki stigið á bak í um það bil fimm ár. Var samt eins og ég hefði verið laminn með lurkum á sunnudag og mánudag. Var svo í át og drykkjuveislu hjá Óla og Eyrúnu í Kambagerði 4 um kvöldið. En lét það þó ekki nægja heldur skrapp á Oddvitann þar sem Greifarnir voru furðu brattir að spila. Annars var fólk eitthvað undarlegt þarna á vitanum, brjótandi bekki og haldandi nærfatasýningar. En jæja, kannski ekkert öðruvísi en venjulega.

|

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

 

15 minutes to midnight

Það tilkynnist hér með að Dóra frænka slapp fyrir horn með því að senda afmæliskveðju á tölvupósti klukkan 23:45. Þakka henni kærlega fyrir það. Þið sem ekki munduð eftir afmælinu mínu, ykkur verður ekki boðið í partí á næstunni. Óheppin þið.

|

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

 

Ég bið þig forláts

Axel minn. Það var alveg stolið úr mér skeytið sem þú sendir mér. En það var nú alveg óþarfi að hafa þetta á heillaskeytaeyðublaði.

|
 

Ég kemst í hátíðarskap, þótt úti séu...

Ég þakka kærlega þann hlýhug sem mér hefur verið sýndur á þessum tímamótum í lífi mínu og vil biðja þjóðina um að veita mér svigrúm til að meðtaka þetta allt saman. Annars gæti myndast gjá einhversstaðar. Ég þakka símtöl sem mér hafa borist (Mikael Guðjón, (Brynja), Mamma og Kiddi frændi). Símskeyti sem mér hafa borist í gegnum sms kerfi símans, (Magga, Hulda, Maja, Tóta og Aron Þór). Ég þakka einnig þau komment sem skrifuð hafa verið á þessa annars ágætu síðu, (Heiða, þakka þér fyrir þrisvar). Einnig þakka ég fyrir heimsóknir, (Snúlla úr Höfðahlíðinni, sem lá og breiddi úr sér í rúminu mínu og lét fara vel um sig þegar ég kom úr baði og fyrirgefðu að ég skyldi henda þér út um gluggann en tilfinningarnar báru mig ofurliði). Og þið hin sem munduð ekki eftir afmælinu mínu. Þið hafið enn sjéns til KLUKKAN TÓLF til að óska mér til hamingju.

|
 

Því að aðaltöffarinn í bænum

er enginn annar en, enginn annar en, enginn annar en, enginn annar en ÉG

|

mánudagur, ágúst 23, 2004

 

Upp með sokkana

Þegar ég byrjaði á þessu bloggi hérna þá hélt ég í einfeldni minni að myndi aldrei skorta eitthvað til að skrifa um. Það reyndist nú öðru nær. Maður er bara alltaf vita andlaus hérna. Það er að vísu lítið um að vera í pólitíkinni. Nema það að Halldór Ásgrímsson er alveg að verða búinn að ganga af Framsóknarflokknum dauðum. En það er nú svosem í lagi. Hverjir eru það eiginlega sem kjósa Framsóknarflokkinn núorðið? Ekki bændur, ekki konur, ekki vinstrimenn (Nema þeir sem halda að Steingímur Hermanns stjórni honum ennþá), ekki hægrimenn (Nema þeir eigi hlutabréf í Skinney-Þinganes). Jú ég veit það eru þeir sem halda að Jóhannes Kristjánsson og Pálmi Gestsson séu í framboði. Já nei, ég segi nú bara svona.

Ipswich gengur bara eins og við var búist í boltanum. Win some, loose some. Það er náttúrlega enginn mannskapur sem þeir hafa. Bara einhverjir nýfermdir strákar og ellilífeyrisþegar. En það er svo sem allt í lagi ef þeir vinna einhverja leiki. En helvíti held ég nú samt að þeir eigi langt í land til að geta spilað í efstu deild. Talandi um efstu deild þá heldur Arsenal áfram að vinna og líklega verða þeir meistarar ef að ekkert klikkar hjá þeim. Annars verður þetta áreiðanlega jafnara heldur en undanfarin ár bæði efst og neðst. Chelsea gæti gert þeim skráveifu en ég held að þeir þurfi lengri tíma. ManU er held ég bara ekki með nógu og gott lið en maður skyldi aldrei afskrifa þá fyrr en í fulla hnefana. Liverpool gæti gert rósir næsta vetur. En ég held að Sir Bobby sé að klúðra þessu með Newcastle. Aðrir eiga ekki sjens. Liðin sem verða í botnbaráttunni verða Norwich (að sjálfsögðu), Crystal Palace, WBA, Everton og Southampton. Líklega fara Palace, Norwich og EVERTON niður. Það þarf allavega eitthvað að gerast andlega hjá þeim. Þeir selja Rooney eitthvert um áramótin og þá verður þetta búið hjá þeim. Þetta verður söguleg stund því að Everton er eitt þriggja liða sem aldrei hefur fallið úr efstu deild. Hin eru Arsenal og Liverpool. Coventry var fjórða liðið en þeir fóru niður um árið. En hvað með Portsmouth? Ég man bara ekki hvort að þeir hafa verið uppi áður. En svo hef ég kannski bara rangt fyrir mér.

|

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

 

Almáttugur og enn sú mæða...

Hér er náttúrlega allt vitlaust að gera eins og venjulega. Fór og heimsótti ömmu mína á laugardaginn. Hún var fjallhress að vanda og var tala um að hún ætlaði í göngur í haust. Það væri nú sjón að sjá hana níræða með grindina á undan sér argandi á eftir kindunum. Nei ég segi nú bara svona.

Fór svo útá Grenivík á sunnudaginn í tvöfalda ammælisveislu. Tvö af börnunum hennar Brynju systur héldu uppá afmælið sitt þá. Gunnar varð 40 ára 21. júlí og Stefanía Daney verður 7 ára 26. ágúst. Þar úðaði maður í sig tertum og alles þangað til maður stóð á blístri.

Fyrir þá sem eru hissa á bloggleti Brynju systur þá er það vegna þess að síðan hún fékk sér þessa nýju fínu tengingu þá hefur tölvan hennar verið full af einhverju vírusógeði þannig að hún kveikir bara helst ekki á henni skilst mér.

Nú erum við enn eina ferðina að fara í stríð við Noreg. Gissur heitinn Þorvaldsson hefði átt að pæla betur í þessu þegar hann undirritaði gamla sáttmála árið 1262. En hann var náttúrlega sunnlendingur greyið.

|

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

 

Everyday Night Fever

Það er nú meiri hitamollan sem búin er að vera hérna undanfarna daga. Hef reynt að halda mig sem mest inni vegna stórlega gallaðs hitaelements. Fjandi gott að sitja við tölvuna með opna glugga og láta trekkja í gegn. Þetta er farið að minna mig á velluna á Roskilde í fyrra þar sem maður svitnaði við að sitja kyrr og drekka bjór. Og ef maður rölti um svæðið með bjórflöskur í nesti þá voru þær orðnar kaffiheitar eftir hálftíma. Jæja en nóg um það. Það er annars merkilegt hvað fólk getur þvaðrað um þetta b lessaða veður alla daga. Fólk situr úti í hitanum og kvartar yfir því hvað sé heitt. Af hverju fer fólk þá ekki eitthvað annað í stað þess að vera að væla þetta. Hef aldrei botnað í þessu. Hef reyndar tekið eftir því að þetta sama fólk lætur alveg eins á veturna. Þá skilur það ekkert í því hvað veðrið getur verið leiðinlegt. HALLÓ HALLÓ við búum á Íslandi. Ef að þú ert óánægð/ur með veðrið, bíddu þá bara aðeins. Ekki það að það hafi virkað undanfarna daga hérna fyrir norðan upp á síðkastið. 25 stiga hiti alla daga. Samkvæmt óáreiðanlegum heimildum þá fór hitinn í 33 stig á Sörlastöðum í vikunni. Ef að fólk veit ekki hvar þeir eru þá ekki gá á landakort því að þeir eru yfirleitt ekki merktir inn. Annars er bara allt í fína lagi með þetta allt saman.

|

laugardagur, ágúst 07, 2004

 

Grámygla og þoka

Það er mikið að maður getur loggað sig hérna inn. Eitthvað helv. agúrkusalat (pikkles) í kerfinu sem gerði það að verkum að ég gat ekki bloggað (afsakanir afsakanir). Það ber helst til tíðinda að ég var eiginlega sendur heim vegna hráefnisskorts úr vinnunni á miðvikudaginn. Það var eiginlega óheppni vegna þess að þá átti ég bágt með að neita litlu systur um að fara út á Grenivík til að hjálpa henni og gamla manninum að helluleggja í garðinum hennar. Þannig að við Sigurgeir og Aron Þór drifum okkur úteftir í bítið á föstudagsmorgun og redduðum þessu fljótt og örugglega.

Síðan drifum við okkur í bæinn og fór ég í grill til Hreiðars og Ásbjargar sem endaði náttúrlega með ósköpum. Allavega þriggja rúllu partí. Þarna voru auk mín og gestgjafanna, Jón, Eiríkur og Guðrún, Tóta og Palli, Dúddi og Lísa, Elli og Kött og Paste. Eftir að menn voru farnir að blunda víðs vegar um íbúðina drifum við okkur, ég Jón og Dúddi áleiðis heim. En Dúddi hvarf okkur sjónum einhversstaðar á Þórsvellinum og veit ég ekki hvort til hans hefur spurst síðan. Þegar að þegar við Nonni vorum komnir heim til mín datt okkur í hug að það gæti verið gaman að skreppa inn í bæ og létum við verða af því. Álpuðumst inn á Dátann og vorum í brjáluðum Techno fílíng með einhverjum börnum þar einhverja stund áður en við sáum okkar óvænna og fórum heim.

Varðandi fyrirspurn sem síðunni hefur borist þá upplýsist það hér með að ég hef ekki verið fullur í allt sumar. En þar sem að grámygla hversdagsleikans umlykur mig flesta daga hérna í fásinninu þá er frá litlu öðru að segja en þessum fáu gleðistundum sem maður á góðra vina hópi.

|

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

 

To Catch a Paper Boy...

Fólk mér nákomið hefur verið að spyrja útí hví ég skrifi ekki um hin kvöldin um verlsunarmannahelgina. Það er skemmst frá því að segja að það er ekkert að skrifa um. Ég nefininilega lá og flatbakaði yfir sjónavarpinu og þessháttar. Var reyndar ákaflega drjúgur í yfirstandandi ættfræðiverkefni sem ég var búinn að lofa að skila af mér haustið. Hulda ertu nokkuð í fýlu yfir að ég nennti ekki að heimsækja ykkur í útileguna? Ég biðst velvirðingar á því en ég bara nennti ekki að keyra þetta. Lagast kannski þegar göngin koma. Annars er maður bara farinn að hlakka til næstu helgar en það verður gríðarlegt partí á föstudagskvöldið hjá Lektornum (H.Þ.Jónsson). Það verður vonandi eitthvað um pappír þar. Annars er bara ekkert að frétta. Vil reyndar minna á að Hvanndalsbræður eiga plötu vikunnar á Rás II.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?