sunnudagur, mars 06, 2005

 

My mind is Blank

Hæ krakkar (og þið hin).

Maður er nú ekki endilega búinn að vera í miklu bloggstuði undanfarið, enda að vinna 12 tíma á dag (eða nótt). En jæja maður er þó allavega í fríi þessa stundina.

Annars fór ég í innflutningspartí hjá Axel og Lilju um síðustu helgi þar sem slett var aðeins úr klaufunum. Þar var matur og göróttir drykkir eins og menn gátu í sig látið. Hilmar fór með gamanmál, Dúddi stiklaði á stóru í sögu körfuknattleiksdeildar Þórs og dansflokkur úr Borgarnesi sýndi listir sínar.

Meira hefur nú varla á daga mína drifið síðustu vikur. Maður vinnur, sefur og borðar og skýst einstöku sinnum til Huldu sis til að horfa á Ædolið og Ameisingreis.

Sé mig knúinn til að hreinsa til örlítið á Alþingi. GUNNAR ÖRLYGSSON, BRYNDÍS HLÖÐVERSDÓTTIR, KOLBRÚN HALLDÓRSDÓTTIR, SIGURJÓN ÞÓRÐARSON OG ANNA KRISTÍN GUNNARSDÓTTIR fá reisupassann að þessu sinni. Af hverju spyr einhver. Gunnar fyrir að reyna að færa Frjálslynda flokkinn til hægri og líka fyrir að vera gamall krimmi. Bryndís fyrir Ingibjargar Sólrúnar plottið, Kolbrún og Sigurjón fyrir að vera veruleikafirt og Anna vegna þess að ég veit ekki hver hún er. Talandi um geðþóttaákvarðanir.

Í gærkvöldi buðu Hulda og Siddi mér í grillmat (Sem var mjög góður, Hulda og hættu svo að kvarta yfir að ég hæli ekki matnum þínum). Á leiðinni renndi ég fram hjá Iron Maiden miðasölunni og sá mér til skelfingar að um 10 manns voru mættir þar í biðröð klukkan hálf sjö en eins og alþjóð veit þá byrjaði miðasalan klukkan 12:30 í dag. Um áttaleytið voru kominir um 40 manns en síðan þegar ég fór heim þá hafði nú ekki fjölgað mikið þannig að ég gat sofnað rólegur því að það er ekki fyrir gamla menn eins og mig að bíða næturlangt í biðröðum eftir miðum á miðaldra metalband. Svo kom Brynja sis í bæinn eldsnemma í morgun og við fylgdust með röðinni öðru hvoru alveg þangað til um 11:40 þá skelltum við okkur í röðina og viti menn u.þ.b. klukkutíma síðar vorum við komin með fjóra miða á Maiden ásamt plaggötum í hendurnar. Þið hefðuð bara átt að sjá barnslega hrifninguna sem skein úr augum okkar og við svifum heim á rósrauðu skýi (sem heitir reyndar Peugeot 407 og er bláleitur). Þannig að ÉG ER AÐ FARA Á IRON MAIDEN OG LIGGA LIGGA LÁ. Hah! gott á ykkur hin. Samkvæmt www.rr.is voru eftir 300 miðar á A svæði klukkan 17:20. Alls verða seldir 5500 miðar á A og 5500 í B svæði.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?