sunnudagur, september 05, 2004

 

Baa baa, black sheep

Reif mig á fætur fyrir allar aldir til þess að drífa mig austur á Illugastaðarétt í þrítugasta og sjötta eða sjöunda skipti. Ætlaði að mæta fyrstur en Grenivíkurpakkið var náttúrlega komið á undan mér. Enda klukkan langt gengin í níu. Það er af sem áður var að það var byrjað að rétta klukkan sjö og ekki búið fyrr en um tvo leitið og þá átti eftir að reka heim. Heimur versnandi fer. Það var einnig mjög algengt að við piltarnir, ja svona á aldrinum 8-12 værum mest allan réttardaginn niður við á að klifra í brúnni og þess háttar sem enginn skipti sér af því að allir voru náttúrlega önnum kafnir við fjárdrátt. Nú mega börn á þessum aldri helst ekki koma nálægt ánni nema helst þrír fullorðnir séu í meters fjarlægð. Samt er mjög svipað af vatni í ánni núna og var þá. Kannski foreldrar séu bara orðnir strangari í dag heldur en þá. Takk Mamma, ég hefði ekki viljað missa af þessu. Fór svo í Sigríðarstaði og dvaldi þar í góðu yfirlæti fram yfir kvöldmat. Amma var mætt eins og venjulega þangað og þeir feðgar Steini og Davíð. Um sexleytið fékk Edda mig til að fara með sér útí Fornhóla til sækja 10 kindur sem þar höfðu komið í hús, en Lalli var ennþá að keyra fé heim af réttinni. Tókst það giftusamlega og þó ég segi sjálfur frá þá held ég að ætti að leggja það fyrir mig að bakka með kerru. Tókst í fyrstu tilraun að bakka að fjárhúsunum á Fornhólum við mikinn fögnuð viðstaddra. Þangað til næst: MeMe.

|


<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?