mánudagur, október 25, 2004

 

Strangedays Here We Come

Undarlegur dagur. Litla systir narraði mig útá Grenivík í dag. Dreif mig af stað um tvöleytið til að ná þessum líka merkilega knattspriddnuleik á Einingunnar í Manchester og Vopnabúrsins frá Lundúnum. Bara til þess að þurfa að horfa á byssurnar tapa sínum fyrsta leik í Úrvalsdeildinni í ég veit ekki hvað mörg ár. Nú er það ekki svo að mér hafi svo em ekki verið slétt sama um það, þar sem ég held alls ekkert með þeim en ég fann bara svolítið til með greyjunum. Svo strax á eftir kom þessi undarlega formúlukeppni þar sem það bar helst til tíðinda að Bazzarello kláraði keppni á heimavelli. Ég er reyndar ekki búinn að sjá stigaútreikninginn í liðsstjóraleiknum en ég held að einhverjir hafi farið langt með að éta upp þetta 800 stiga forskot sem ég var búinn að ná hina "snillingana". Þá eldaði húsmóðirinn bringukolla af hænu með ofnsteiktum kartöflustrimlum, berserkjasveppum, piparávöxtum og grænpiparsósu og var þetta bara nokkuð gott hjá henni og takk fyrir mig Brynja mín. Það er greinilegt að Gunni hefur kennt þér að elda einhverntíman. Þegar öllu þessu var lokið hófst hápunktur kvöldsins. Bingó á Skjá einum með Villa naglbít. Ég hef nú aldrei vitað annað eins á ævi minni. Þarna sat maður með 36 bingóspjöld fyrir framan sig og missti af öllum tölunum. Ég veit ekki ennþá hvort ég fékk bingó því að þetta gerðist allt svo snöggt. Ætli ég verði ekki að horfa á endursýninguna á mánudaginn til að komast að því. Fór svo heim örvinglaður og dauðuppgefinn á sál og líkama í grenjandi stórhríð svo sá ekki útúr augunum. Fyrir þá sem ekki vita það þá er ég ekki enn búinn að gera við miðstöðina í bílnum og það er hálfasnalegt að keyra í hríð með galopna glugga, rúðusköfuna á fullu og sætahitarann botni. En sem betur fer hætti snjókoman skyndilega í Nollarbekkunni þannig að ég var kominn heim vonum fyrr.

GUÐNI ÁGÚSTSSON, varð fyrir svörum á Alþingi um eignarhald á jörðum og ég bara skildi hann ekki. Mér fannst meira vit í því sem Brad Pitt sagði sem hasshausinn í True Romance þarna um árið. Guðni haltu bara áfram að reykja njólann þinn einhversstaðar þar sem fólk heyrir ekki til þín. Man ekki eftir fleirum í bili sem hafa gert á sig í vikunni þannig að það er best að henda GUÐLAUGI ÞÓR ÞÓRÐARSYNI burt líka. Mér hefur alltaf þótt þú leiðinlegur síðan við vorum samam í MA þarna í gamla daga. Og ég sé enn ekki eftir því að hafa ekki kosið þig sem formann skólafélagsins um árið og sá dagur á örugglega ekki eftir að koma.

PS! Það eiga allir orðið fartölvu nema ég. Meira að sega Mamma gamla.

|


<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?